Samið við Sjúkratryggingar um bakaðgerðir

Læknastöðin Orkuhúsinu hefur gert samning við Sjúkratryggingar Íslands um bakaðgerðir vegna brjóskloss eða þrenginga í mænugöngum. Samningurinn er tímabundinn til áramóta, en samið er um 78 aðgerðir á því tímabili. Fram að áramótum þurfa sjúklingar því eingöngu að greiða skv. stöðu sinni hjá Sjúkratryggingum, líkt og fyrir aðrar aðgerðir og viðtöl hjá sérgreinalæknum.

Sjúkratryggingar óskuðu eftir tilboði í þessar aðgerðir þann 4. október sl. og átti að skila inn tilboði í síðasta lagi 9. október. Tvö tilboð bárust og var tilboð Læknastöðvarinnar metið hagstæðast. Samningur um þessar aðgerðir var síðan undirritaður þann 16. október.

Í skilmálum samningsins kemur fram að tilvísanir þurfa að koma frá Landspítalanum og að það liggi fyrir segulómskoðun sem er minna en árs gömul. Einnig að aðeins verði gerðar aðgerðir að hámarki á einu lendarbili, á sjúklingum í ASA flokki 1-2 sem metið er af svæfingalækni.

Vonandi verður hægt að gera annan samning frá áramótum svo óvissa verði ekki aftur um þennan sjúklingahóp og hann fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.