Leiðbeiningar um hverju skal huga að fyrir og eftir aðgerðir

Hér er hægt að sækja pdf skjal til útprentunar með leiðbeiningum um hverju skal huga að fyrir og eftir aðgerðir

 Aðgerð í deyfingu - PRENTA

Í deyfingu

Fyrir aðgerð

  • Hættu á blóðþynningarlyfjum viku fyrir aðgerð í samráði við lækninn, sem er ábyrgur fyrir þeirri meðferð, nema skurðlæknirinn hafi tekið annað fram.
  • Önnur lyf má taka eins og venjulega, líka aðgerðardag.
  • Þegar um skurðaðgerð á hendi er að ræða skal fjarlægja hringa af aðgerðarhendi 2 dögum fyrir aðgerð. Eyddu naglalakki af fingrum, fjarlægðu alla skartgripi og farðu í sturtu að morgni aðgerðardags.
  • Ekki bera olíur eða krem á líkamann og ekki nota ilmvatn.
  • Best er að koma í þægilegum fatnaði, sem auðvelt er að fara úr og í.
  • Þú þarft ekki að fasta.
  • Vertu með símann á þér fyrir aðgerðina því mögulega verður hringt í þig og aðgerðinni flýtt eða seinkað.
  • Þegar þú mætir á skurðstofugang Orkuhússins hittir þú skurðlækninn, sem deyfir þig.
  • Meðan þú bíður aðgerðar getur þú skoðað símann þinn eða hlustað á efni úr honum, hafir þú haft lítil heyrnartól með. Hvorki er leyft að tala í síma né taka myndir á skurðstofugangi.

Eftir aðgerð

  • Eftir aðgerð á höndum gengur þú af skurðarborði og ferð beint heim. Eftir aðgerð á fótum jafnar þú þig í hliðarherbergi á skurðstofu Orkuhússins áður en þú ferð heim.
  • Þér er ráðlagt að aka ekki bifreið samdægurs eftir aðgerð.
  • Gott er að útlimurinn sé í hástöðu eins og kostur er fyrstu dagana eftir aðgerð til að minnka bólgu.
  • Einhver óþægindi verða frá svæði aðgerðar fyrstu dagana eða vikurnar. Oftast dugar að taka verkjalyfið Panodil og bólgueyðandi lyf eins og Ibufen. Lyfin fást án lyfseðils. Í öðrum tilfellum mun skurðlæknirinn ávísa sterkari lyfjum.
  • Fara má í sturtu en hlífa þarf umbúðunum með plastpoka. Eftir smærri aðgerðir á höndum má þó skola sárið stuttlega með hreinu, rennandi vatni frá þriðja degi eftir aðgerð.
  • Ef eitthvað óvænt ber að höndum, svo sem svæsnir verkir, mikil blæðing eða hækkaður líkamshiti, skaltu hafa samband við skurðlækninn.