Hjá Orkuhúsinu (OH) er lögð áhersla á góðan starfsanda, þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og
hreinskilni milli allra starfsmanna. Öllum ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og sýna
hver öðrum tilhlýðilega virðingu og jákvætt viðmót.
Allir á vinnustaðnum þurfa að leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja neikvæða hegðun og stuðla að
góðum samskiptum, starfsánægju og öruggu umhverfi. Þetta skiptir okkur öll miklu máli og við
berum öll ábyrgð í þessum efnum. Því er mikilvægt að starfsfólk og verktakar láti vita ef upp koma
neikvæð og erfið samskipti til að hægt sé að taka á málum.
Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi verður undir engum kringumstæðum
umborið á vinnustaðnum.
Upplifun einstaklingsins skiptir meginmáli þegar rætt er um einelti og aðra ótilhlýðilega hegðun.
Sérhver þolandi verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber, frá hverjum og segja frá sé
honum misboðið.
Stefna þessi og viðbragðsáætlun er sett á grundvelli 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað,
hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðar nr. 1009/2015 um um aðgerðir gegn einelti,
kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Hún byggir á samskonar stefnu
og áætlun sem Samtök atvinnulífsins (SA) hafa sett saman.
Markmið stefnu og viðbragðsáætlunar gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi
er að koma í veg fyrir áreitni á vinnustaðnum og tryggja að úrræði séu til staðar, telji aðili sig hafa
orðið fyrir slíkum brotum. Skilgreiningar á hugtökum í stefnu þessari og viðbragðsáætlun styðst við
gildandi vinnuverndarlög og reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni
áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015:
Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni
verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.
Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og
hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru
ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og
hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til
ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið
orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga
þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.
Stjórnendur skulu vinna að því að tryggja gott vinnuumhverfi og að samskipti á vinnustað séu í
samræmi við stefnu OH. Þeir skulu kynna nýjum starfsmönnum og verktökum OH stefnu þessa og
viðbragðsáætlun þegar við upphaf starfs.
Stjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um þær aðstæður á vinnustað sem geta ýtt undir einelti,
áreitni og ofbeldi og fyrirbyggja óviðeigandi hegðun s.s. með því að taka strax á neikvæðu tali, vera
fyrirmynd í framkomu og samskiptum og efla jákvæðan starfsanda. Þeir skulu gera starfsmönnum
ljóst ef hegðun þeirra er óviðeigandi.
Stjórnendur skulu bregðast við í samræmi við viðbragðsáætlun ef kvörtun eða ábending berst um
einelti, áreitni eða ofbeldi. Þeir skulu sýna varfærni, nærgætni og trúnað í öllum aðgerðum.
Starfsmönnum og verktökum er óheimilt að leggja aðra starfsmenn í einelti, áreita eða beita þá
ofbeldi.
Það er á ábyrgð allra starfsmanna og verktaka OH að koma í veg fyrir einelti og aðra ótilhlýðilega
hegðun, bæði með eigin athöfnum og tilkynningu til framkvæmdastjóra.
Starfsmaður skal upplýsa framkvæmdastjóra, telji hann sig hafa orðið fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi
eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun á vinnustaðnum.
Hafa ber í huga að einstaklingur getur verið ómeðvitaður um að hegðun hans sé óviðeigandi.
Því er mikilvægt að starfsmenn setji mörk og geri grein fyrir því ef þeim líkar ekki framkoman.
Ef einstaklingur treystir sér ekki til að tala við viðkomandi ætti hann að leita aðstoðar og eftir
atvikum tilkynna um málið.
Nýjum starfsmönnum skal kynnt stefna og viðbragðsáætlun OH til að koma í veg fyrir einelti,
kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi strax við upphaf starfs. Stefnan og
viðbragsáætlunin eru rifjaðar upp reglulega. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi
er ekki liðið hjá OH en jafnframt verður tekið á fölskum ásökunum um einelti, áreitni eða ofbeldi.
Ef framkvæmdastjóri fær vitneskju um einelti, áreitni eða ofbeldi skal hann bregðast við í samræmi
við viðbragðsáætlun.
OH mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti, beita áreitni eða ofbeldi,
t.d. með áminningu eða uppsögn. Gerandinn verður látinn axla ábyrgð. Þörf þolanda fyrir stuðning er
metin og stuðningur veittur eftir því sem þörf krefur.
Leiði mat á aðstæðum til þess að einelti, áreitni eða ofbeldi eigi sér ekki stað eða hafi ekki átt sér
stað á vinnustaðnum skal samt sem áður grípa til aðgerða í því skyni að uppræta þær aðstæður sem
kvartað hafði verið yfir eða bent verið á, séu aðstæðurnar enn til staðar, sem og í því skyni að koma í
veg fyrir að aðstæðurnar komi upp aftur.
Starfsmaður sem hefur orðið fyrir eða hefur vitneskju um einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað skal
upplýsa framkvæmdastjóra síns fyrirtækis um það. Ef framkvæmdastjóri er gerandi málsins eða
sinnir því ekki er hægt að snúa sér til stjórnarformanns, eða framkvæmdastjóra OH.
Í samráði við þolanda er ákveðið hvort bregðast megi við með óformlegri málsmeðferð eða hvort lög
og reglur á sviði vinnuverndar krefjist formlegrar málsmeðferðar. Stjórnanda ber í öllum tilvikum að
bregðast við og uppfylla þær skyldur sem hvíla á atvinnurekanda samkvæmt lögum og reglum, m.a.
til að koma í veg fyrir að ótilhlýðileg hegðun endurtaki sig á vinnustaðnum.
Á meðan málsmeðferð stendur ber að notast við hugtökin „meintur þolandi“ og „meintur gerandi“.
Óformleg málsmeðferð
Ef þolandi óskar eftir óformlegri málsmeðferð, og stjórnandi telur heimilt að verða við því, er
upplýsinga leitað hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf í
samráði við framkvæmdastjóra. Gripið er til viðeigandi aðgerða í samráði við þolanda.
Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið.
Formleg málsmeðferð
Ef atvik krefst formlegrar málsmeðferðar skal framkvæmdastjóri bregðast við í samræmi við
eftirfarandi verklag:
1. Rannsókn
a) Ræða við meintan þolanda, fara vel yfir hans upplifun og lýsingu á atvikum. Kanna hverjir hafi orðið vitni að tilgreindum atvikum að mati þolanda.
b) Ræða við meintan geranda, fara yfir hans upplifun af tilgreindum atvikum og lýsingu hans á þeim. Kanna hverjir hafi orðið vitni að atvikunum að mati geranda.
c) Bjóða meintum þolanda og meintum geranda upp á ráðgjöf og eftir atvikum utanaðkomandi ráðgjafa.
d) Ræða við meint vitni að atvikum ef þörf er á, fá upplýsingar um þeirra upplifun af atvikum, atvikalýsingu og hverjir hafi verið viðstaddir.
e) Skrá skal niður allt sem tengist meðferð málsins og halda hlutaðeigandi starfsmönnum upplýstum meðan á meðferðinni stendur. Aðgangur að gögnum er takmarkaður við þá sem vinna að könnun málsins.
2. Mat
a) Fara yfir mat á því hvað hafi átt sér stað.
b) Meta hvort það geti talist vera einelti, áreitni eða ofbeldi samkvæmt skilgreiningu.
3. Aðgerðir
a) Ef niðurstaðan er að um samskiptavanda sé að ræða en ekki einelti, áreitni eða ofbeldi í skilningu stefnu þessarar:
1. Greiða úr samskiptum.
2. Gefa skýr skilaboð um samskipti á vinnustað.
3. Eftirlit og eftirfylgni.
b) Ef talið er að um einelti, áreitni eða ofbeldi sé að ræða í skilningi stefnu þessarar:
1. Fá aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa.
2. Meta afleiðingar fyrir geranda.
a. Áminning/uppsögn. Geranda getur verið veitt áminning eða til uppsagnar getur komið allt eftir mati á alvarleika málsins.
Málefni verktaka fara á borð stjórnar hvers fyrirtækis.
b. Ákvörðun um hvernig er tekið á máli ef gerandi verður áfram á vinnustaðnum til að koma í veg fyrir frekara einelti.
3. Eftirfylgni.
a. Stuðningur við þolanda.
b. Fylgjast með andlegri líðan þolanda.
c. Mat á árangri aðgerða.
d. Leggja mat á hvort þörf er á breytingum á vinnustað, vinnubrögðum, vinnuskipulagi eða öðru til að draga úr líkum á endurteknum tilvikum.
e. Þegar litið er svo á að máli sé lokið skal upplýsa hlutaðeigandi starfsmenn um það.
Allar upplýsingar sem fást um málið verða meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og verða skrifleg gögn
varðveitt á öruggum stað á ábyrgð atvinnurekanda í samræmi við lög um persónuvernd.
Hlutaðeigandi starfsmönnum er veittur aðgangur að gögnum eftir því sem þeir óska og lög um
persónuvernd heimila. Ef málsatvik varða einstakling sem ekki er starfsmaður OH eða verktaki, en
samskiptin eiga sér stað í tengslum við starfsemi OH, mun framkvæmdastjóri strax hefja athugun á
málsatvikum.
Að athugun lokinni mun verða gripið til aðgerða til að varna að slíkt komi fyrir aftur. Í þessu felst að
gripið verður til ráðstafana og aðgerða sem eru til þess fallnar að verja starfsfólk fyrir slíku áreiti.
Fundin verður lausn sem m.a. getur falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða
vinnuskipulagi.
Þegar litið er á að máli sé lokið skal upplýsa hlutaðeigandi starfsmenn um það.
Stefnu þessa og viðbragðsáætlun, skal rýna og endurskoða svo oft sem þurfa þykir af öryggis- og
gæðanefnd OH.