Leiðbeiningar um hverju skal huga að fyrir og eftir aðgerðir

 

pdf-skjal með leiðbeiningum um hverju skal huga að fyrir og eftir aðgerðir með aðkomu svæfingarlæknis

Með aðkomu svæfingarlæknis

Fyrir aðgerð 

  • Hættu á blóðþynningarlyfjum í viku fyrir aðgerð í samráði við lækninn, sem er ábyrgur fyrir þeirri meðferð.
  • Að morgni aðgerðardags skaltu taka inn lyfin þín, að blóðþynningarlyfjum undanskildum og öðrum þeim, sem skurðlæknirinn kynni að hafa tilgreint sérstaklega.
  • Nauðsynlegt er að vera fastandi á mat og drykk í minnst 6 klukkustundir fyrir aðgerð. Þú mátt drekka 1 glas af tærum drykk 2 tímum fyrir komu. Tærir drykkir eru vatn, kaffi (án mjólkur) og tær ávaxtasafi. Þú mátt líka taka nokkra vatnssopa með nauðsynlegum lyfjum klukkustund fyrir aðgerð.
  • Þú mátt ekki reykja, nota tyggigúmmí eða munntóbak minnst tveimur tímum fyrir aðgerð.
  • Þegar um skurðaðgerð á hendi er að ræða skal fjarlægja hringa af aðgerðarhendi 2 dögum fyrir aðgerð. Eyddu naglalakki af fingrum, fjarlægðu alla skartgripi og farðu í sturtu að morgni aðgerðardags.
  • Ekki bera olíur eða krem á líkamann og ekki nota ilmvatn. Best er að koma í þægilegum fatnaði, sem auðvelt er að fara úr og í.
  • Vertu með símann á þér fyrir aðgerðina því mögulega verður hringt í þig og aðgerðinni flýtt eða seinkað. Ekki er leyft að taka myndir. Á meðan aðgerð stendur er slökkt á símanum. Símtöl eru ekki leyfð á vöknunarherbergi nema til að láta sækja sig.
  • Þegar þú mætir á skurðstofugang Orkuhússins kemur þú til með að hitta skurðlækni og svæfingalækni áður en kemur að skurðaðgerðinni.

Eftir aðgerð

  • Eftir aðgerð ferðu inn á vöknunarherbergi og jafnar þig. Þegar þú hefur jafnað þig ræðir skurðlæknirinn við þig og þú færð að fara heim.
  • Oftast eru einhver óþægindi frá aðgerðarsvæðinu fyrstu dagana eða vikurnar. Í sumum tilfellum dugar að taka verkjalyfið Panodil og bólgueyðandi lyf eins og Ibufen. Lyfin fást án lyfseðils. Í öðrum tilfellum mun skurðlæknir ávísa lyfjum í viðtali fyrir aðgerð eða við útskrift.
  • Vegna deyfingar- eða svæfingarlyfjanna mátt þú ekki keyra í sólarhring eftir aðgerð.
  • Fara má í sturtu en hlífa þarf umbúðunum með plastpoka.
  • Ef eitthvað óvænt ber að höndum, svo sem svæsnir verkir, mikil blæðing eða hækkaður líkamshiti, skaltu hafa samband við skurðlækninn.