Í rúmt ár hefur Læknastöðin í Orkuhúsinu verið að undirbúa það verkefni að hefja hryggjaraðgerðir, en það er í fyrsta skipti sem þær aðgerðir yrðu gerðar utan Landspítala eða hins opinbera á Íslandi. Helstu aðgerðir sem verður farið af stað með eru brjósklosaðgerðir og fargleiðrétting á mænugangi (laminotomia). Við höfum opnað fyrir móttöku tilvísana, hittum fyrstu sjúklinga í maí og áætlum að hefja fyrstu aðgerðirnar í júní. Þessar aðgerðir verða framkvæmdar af heila- og taugaskurðlæknum og eru það tvær íslenskar konur sem leiða verkefnið, þær Guðrún Guðmundsdóttir og Hulda Brá Magnadóttir.
Hulda Brá Magnadóttir, útskrifaðist frá læknadeild HÍ 1993. Sérnám í heila-og taugaskurðlækningum við Dartmouth-Hitchcock Medical center í NH, USA frá 1996-2002. Hún tók einnig master í biostatistics og epidemiology við Dartmouth College 2001. Varð fyrst íslenskra kvenna með sérfræðiréttindi í heila- og taugaskurðlækningum. Hún vann í 2 ár í Lebanon NH bandaríkjunum eftir lok sérnáms og kom svo heim til Íslands og vann á heila-og taugaskurðdeildinni frá 2004-2008. Hulda Brá flutti svo aftur til bandaríkjanna 2008 og hefur starfað á einkastofu í Lebanon NH síðan, með aðal áherslu á hryggjaraðgerðir með áherslu á minimally invasive (inngripsminni) smásjáraðgerðum. Bæði hálsar og mjóbök - dagaðgerðir. Hún hefur yfirleitt framkvæmt u.þ.b. 300 aðgerðir á ári, langflestar þar sem sjúklingur fer heim sama dag með mjög góðum árangri og lágri tíðni fylgikvilla.
Guðrún Guðmundsdóttir, læknir frá Háskóla Íslands 1996. Sérfræðileyfi í heila- og taugaskurðlækningum 2005 eftir nám í Danmörku. Önnur íslenskra kvenna – Hulda Brá var fyrst. Starfaði lengi í Álaborg og síðustu ár sem yfirlæknir. Frá 2012 sviðstjóri (ledende overlæge) á Háskólasjúkrahúsinu í Árósum þar sem hún stýrir faglegri þróun og daglegrum rekstri allra aðgerða á hryggjarsúlu, en á deildinni eru framkvæmar 1200 hryggjaraðgerðir árlega. Guðrún framkvæmir allar venjulegar aðgerðir sem dagaðgerðir, ásamt flóknari tilfellum og börnum. Allar aðgerðir eru framkvæmdar með smásjá og með lágri tíðni fylgikvilla. Hún sinnir einnig kennslu á námskeiðum erlendis og er með greinabirtingar í fagritum.
Fyrst um sinn verður þessi starfsemi að mestu fyrir utan greiðsluþátttökukerfi ríkisins, þar sem þessar aðgerðir eru ekki hluti af samningi Sjúkratrygginga Íslands við Læknafélag Reykjavíkur. Vonir standa til þess að viðræður við Sjúkratryggingar Íslands þess efnis, skili árangri á þessu ári og samningur náist um greiðsluþátttöku.