Um okkur

Saga Læknastöðvarinnar

 

Stofnað í ágústmánuði 1997 af þremur bæklunarskurðlæknum

Læknastöðin í Orkuhúsinu er rekin af Stoðkerfi ehf. Félagið var stofnað í ágústmánuði 1997 af þremur bæklunarskurðlæknum og einum svæfingarlækni. Ástæðan var sú að svokallaðar dagaðgerðir bæklunarskurðlækna komust illa að á sjúkrahúsum höfuðborgarsvæðisins og langir biðlistar höfðu myndast. Þótt engir samningar væru til við Tryggingastofnun ríkisins, réðust stofnendur félagsins í endurbætur á læknastöð sem þeir höfðu keypt að Álftamýri 5. Samningar við TR tókust þó fljótt og full starfsemi félagsins hófst árið 1998.

Í upphafi starfrækti Stoðkerfi ehf. aðeins nokkrar læknastofur og eina til tvær skurðstofur. Starfseminni jókst þó fljótt ásmegin og læknum fjölgaði. Félagið keypti allt húsnæði að Álftamýri 3-5 árið 1999, og tók undir starfsemina. Þá voru hluthafarnir orðnir tíu talsins. Læknastöðin fékk fleiri til samstarfs við sig; Íslenska myndgreiningu, sem sá um myndgreiningaþjónustu; Sjúkraþjálfun Íslands og síðan innanlandsdeild Össurar hf. Árið 2000 var því komin full starfsemi í húsnæðið í Álftamýri og fleiri öflugir læknar komnir til starfa. Starfsemi fyrirtækjanna allra var rekin í um 1700 fermetra húsnæði og var hver einasti fermetri fullnýttur. Því varð fljótt ljóst að vöxtur starfseminnar var meiri en húsnæðið leyfði.

Árið 2003 fluttist starfsemin að Suðurlandsbraut 34

Árið 2003 fluttist starfsemin að Suðurlandsbraut 34, þar sem Orkuveitan hafði áður verið til húsa. 4000 fermetra húsnæði var þá tekið undir alla starfsemi fyrirtækjanna og gefið nafnið Orkuhúsið. Læknastöðin rekur rúm 40% af þessu húsnæði, tvær móttökuhæðir auk þess sem fjórar skurðstofur eru í fullum rekstri. Kennslu- og fundaraðstaða er síðan í sameign.

Á skurðstofum félagsins eru gerðar um 5000 aðgerðir á ári

Læknastöðin sinnir stórum hluta sjúklinga með stoðkerfisvandamál á höfuðborgarsvæðinu en einnig af landinu öllu. Á skurðstofum félagsins eru gerðar um 5000 aðgerðir á ári. Þetta eru einkum ýmsar liðspeglunaraðgerðir, krossbandsaðgerðir, handa- og fótaaðgerðir. Allt eru þetta dagaðgerðir þar sem sjúklingar fara fljótlega heim að lokinni aðgerð. Móttökustarfsemi Læknastöðvarinnar er umfangsmikil og til okkar leita um 20.000 einstaklingar á ári.

Hjá okkur starfa rúmlega 50 manns

Hjá okkur starfa rúmlega 50 manns, þ.m.t. bæklunarlæknar, svæfingarlæknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknaritarar og móttökuritarar. Við leggjum metnað okkar í að veita sem besta þjónustu við sjúklinga í þægilegu umhverfi.