Aðgerðir

Aðgerðir og einföld inngrip

Á skurðstofum Læknastöðvarinnar eru ýmsar aðgerðir og meðferðir framkvæmdar, svokallaðar dagaðgerðir sem þarfnast ekki innlagnar á sjúkrahús.

Algengastar þeirra eru:

Liðaspeglanir

Liðspeglun er gerð í svæfingu eða deyfingu. Helstu kostir speglunar eru styttri aðgerðartími, minni blæðing, minni ör og skjótari endurhæfing.

Gerð eru tvö lítil göt (stundum fleiri) þar sem lítilli myndavél er komið fyrir inn í liðnum og hann rannsakaður hátt og lágt m.t.t. áverka eða annarra breytinga sem kunna að vera til staðar. Í gegnum hitt gatið er síðan farið inn með verkfæri til að hreinsa m.a. bólguvef, fjarlægja bein sem þrengir að sinum og vöðvum, fjarlægja liðmýs, snyrta til liðþófa og meðhöndla brjóskáverka.

Í sumum tilfellum þegar skýring á einkennum finnst ekki við hefðbundna skoðun, rannsókn og/eða myndgreiningu þarf einnig að skoða liðinn með liðspeglun. Saltvatni er dælt inn í liðinn meðan á aðgerð stendur til að þenja út liðinn.

Eftir, eða fyrir aðgerðina, er sett deyfing í liðinn til verkjastillingar. Saumað fyrir götin og settar mjúkar umbúðir.

Algengastar eru:

  • Ökklaspeglanir – Algengasta ástæða þessara aðgerða eru beinnabbar, fríir beinbitar eða brjóskskemmdir.
  • Hnéspeglanir – Algengasta ástæða þessara aðgerða eru skemmdir á liðþófa en einnig getur verið áverki á krossbönd eða brjóskið.
  • Mjaðmaspeglanir – Mjaðmaspeglanir eru gerðar í svæfingu. Algengasta ástæða þessara aðgerða eru þrengsli þar sem lærleggsháls er of þykkur og getur valdið skemmdum á liðvör eða áverka á brjóskið.
  • Axlaspeglanir – Algengasta ástæða þessara  aðgerða er klemma á sinum

Krossbandsaðgerðir

Tveir bæklunarsérfræðingar eru oftast með í þessum aðgerðum.

Til að búa til nýtt krossband þarf nýja sin/sinar og það sem oftast er notað er sinarnar sem eru frá aftanlærisvöðvunum og sem festast rétt neðan við innanvert hnéð eða miðhluti sinarinnar sem gengur frá hnéskel og niður á sköflung með tveimur beinbitum í sitthvorum endanum.

Í gegnum tvö speglunargöt og með hjálp sérstakra stefnutækja og leiðara eru boraðir gangar í sköflunginn og lærbeinið og nýja krossbandið dregið upp í gegnum þessa ganga og fest með málmskrúfum eða plötum sem festa sinarnar meðan þær gróa við beinið.